Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að sú ákvörðun forseta Íslands, að staðfesta ekki fjölmiðlalögin, hafi komið ríkisstjórninni algerlega í opna skjöldu. „Það er komin hér upp fullkomin óvissa, óvissuástand sem ég hélt ekki að gæti skapast hér, og við verðum að fá tíma til að vinna okkur út úr því," sagði Halldór við blaðamenn í utanríkisráðuneytinu nú síðdegis.
„Þetta hefur verið viðburðaríkur dagur og það er rétt að forseti Íslands hringdi í mig í dag um kl. hálf fjögur til þess að tilkynna mér það að hann hefði ákveðið að staðfesta ekki þessi lög (fjölmiðlalögin). Ég tjáði honum það að ég teldi það óskynsamlega ákvörðun og við ákváðum að ræða það í sjálfu sér ekki frekar og hann sagðist senda mér yfirlýsinguna um ástæður hans fyrir því að hann gerði þetta. Ég spurði hann þá um það hvernig hann liti á framhaldið og hann sagði að það væri skýrt samkvæmt stjórnarskránni en tók það sérstaklega fram að hér væri ekki um að ræða gagnrýni, hvorki á Alþingi eða ríkisstjórn. Ég sagðist ekki sjá hvernig það gæti farið heim og saman,“ sagði Halldór á fundi með blaðamönnum.
Spurður um hvernig hann liti á framhaldið, sagði Halldór að hann teldi að nú yrðu menn að fara yfir það hvernig ætti að bregðast við þessu. „Ég tel að við verðum að fá valinkunna lögfræðinga til þess að fara yfir það vegna þess að svona staða hefur aldrei komið upp áður og menn hafa almennt ekki ímyndað sér það að gripið yrði til þessa valds, sem forsetinn hefur samkvæmt stjórnarskránni, af þessu tilefni. Það hafa áður komið upp ýmis mál en aldrei verið reiknað með því, og við gerðum ekki ráð fyrir þessu. Það mun taka einhvern tíma að átta sig á því,“ sagði Halldór.
Kemur á óvart
Halldór sagði að ákvörðun forsetans hefði komið sér á óvart og að í hans huga væri ljóst að setja yrði löggjöf og aðeins Alþingi gæti sett slíka löggjöf. „Ég tel að fyrst verðum við að fá ráðrúm og tíma til þess að átta okkur á því hvernig verði brugðist við,“ sagði Halldór.
Hann sagðist telja öruggt að atkvæðagreiðsla verði um málið. „En það liggur ekkert fyrir um það hvernig hún á að fara fram. Það er aðeins tekið fram svo fljótt sem verða má og það er hlutur sem ég tel að verði að virða,“ sagði Halldór.
Ekki rætt við Davíð um ákvörðun forseta
Halldór sagði að ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis þyrftu að undirbúa málið. Hann sagði að hann hefði enn ekki haft tíma til að ræða málið við Davíð Oddsson forsætisráðherra.