Jón Steinar: Ákvörðunin breytir eðli forsetaembættisins

Jón Steinar Gunnlaugsson, prófessor í lögum, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að staðfesta ekki fjölmiðlalögin, breyttu eðli forsetaembættisins og gerði það pólitískara. Sagði Jón Steinar að endurskoða þurfi þessi ákvæði stjórnarskrárinnar og ákveða hvort menn vilji að forsetinn fari með þetta vald eða afnema það og kveða með öðrum hætti á um með hvaða hætti lög verði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sagði Jón Steinar, að það hafi ekki gerst áður að forseti synji staðfestingar á lögum þótt hann drægi ekki í efa, að forsetinn hefði formlega þennan rétt, þótt fræðimenn greindi á um það. Með því að beita þessum rétti væri forsetinn að taka miklu pólitískari þátt í löggjafarstarfinu en forseti Íslands hefði gert á lýðveldistímanum.

Þá sagði Jón Steinar að það vekti athygli hvaða mál forsetinn veldi. Um væri að ræða hávaðamál, sem fyrst og fremst hefði farið hátt vegna þess að það snérist um fjölmiðlana og þeir stjórnuðu umræðu í landinu. Sagði Jón Steinar, að Ólafur Ragnar hefði t.d. neitað að beita þessum rétti þegar óvinsæl lög voru sett um öryrkja fyrir tveimur árum. Þá sagði Jón Steinar að það stingi í augun, að Ólafur Ragnar hefði verið í miklum persónulegum tengslum við forsvarsmenn Norðurljósa.

Loks sagði Jón Steinar, að sér þætti óþægilegt að þetta gerðist þegar forsetakosningar væru á næsta leyti og framboðsfrestur væri liðinn. „Ég vil meina að gagnvart þjóðinni hefur orðið hér einhver ný stefna í beitingu þessa embættis, sem er mjög óheppilegt að gerist á þessu augnabliki. Einhverjir landsmenn eru andvígir því að forsetinn beiti þessu valdi svona og þeir hafa ekki tækifæri til þess að bjóða fram gegn honum lengur," sagði Jón Steinar.

Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í Kastljósinu að engir forsetar hefðu haft meiri afskipti af stjórnmálum hér á landi en fyrstu tveir forsetar lýðveldisins.

Þá sagði hann að Ólafur Ragnar hefði þrívegis tjáð sig um skilyrði þess að ákvæði stjórnarskrárinnar, sem heimili forseta að synja lögum staðfestingar. Þau séu í fyrsta lagi, að mál þurfi að vera umdeilt, í öðru lagi að þurfi það að vera mikilvægt og í þriðja lagi þurfi að hafa skapast gjá milli þings og þjóðar. Sagði Svanur, að forsetinn væri ekki með þessu að taka afstöðu til málsins. „Ég sé ekki hvaða vafi eða óvissa er á ferð með það, að handhafi fullveldisins, þjóðin, eigi að skera úr um það hvort hún samþykki einhver lög eða ekki," sagði Svanur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert