Skiptar skoðanir komu fram á fundi Lögmannafélags Íslands í morgun þar sem fjallað var um synjunarvald forseta Íslands, en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ákvað í gær að staðfesta ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum og vísa þeim þess í stað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þór Vilhjálmsson, fyrrum hæstaréttardómari og dómari við mannréttindadómstólinn, lýsti þeirri skoðun á fundinum að forseti Íslands hefði ekkert framkvæmdavald, þótt í stjórnarskránni segði að hann hefði slíkt vald. Þá lýsti Þór þeirri skoðun sinni, að forsetinn hefði ekki heldur löggjafarvald þótt það stæði í stjórnarskránni. Lagði Þór áherslu á 13. grein stjórnarskrárinnar um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.
Sigurður Líndal, lagaprófessor, sagði hins vegar að ef synjunarvaldið væri í raun í höndum ráðherra, sem háður væri meirihluta Alþingis, hlyti hann að eiga óhægt um vik að beita því valdi gegn lögum sem meirihluti þings hefði sett. Það merkti að 26. ákvæði stjórnarskrárinnar um synjunarvaldið væri í raun dauður bókstafur.
„Þá spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum er verið að setja 26. greinina inn og af hverju var verið að ræða hana fram og aftur á Alþingi 1944; voru menn í einhverju dái eða vissu menn ekki hvað þeir gerðu?" sagði Sigurður. „Ég vil ekki taka undir þetta, þótt ég sé ekki alltaf hrifinn af störfum Alþingis."