Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að Davíð Oddsson hafi slitið fundi stjórnar og stjórnarandstöðu eftir tólf til fimmtán mínútur. Fundurinn hafi verið ákaflega vinsamlegur framan af og rætt hafi verið af hreinskilni um hvaða hluti þyrfti að ná samkomulagi um.
Össur segir að lögð hafi verið áhersla á þá eindregnu ósk stjórnarandstöðunnar, að hún hefði aðkomu að ákvörðunum, sem tengdust smíði frumvarpa, hvenær þing kæmi saman og þjóðaratkvæðagreiðslu og hvers eðlis frumvarp yrði. Þá hafi verið rætt um hve lengi þing ætti að standa. Þeir hafi lagt áherslu á að ekki yrðu sett nein skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Össur sagði að formenn stjórnarandstöðunnar hefðu vísað til 11. greinar stjórnarskrárinnar, sem m.a. Geir Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði ítrekað vísað til. [Í 11. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að forseti verði leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi. Innsk. Fréttavefur Morgunblaðsins.]
„Þetta leiddi til mjög snarpra orðaskipta og forsætisráðherra sleit fundinum og lyktir hans voru ekki vinsamlegar,“ sagði Össur.