Nýtt fyrirtæki býðst til að hífa Guðrúnu upp

Guðrún Gísladóttir KE á strandstað við Lófót áður en hún …
Guðrún Gísladóttir KE á strandstað við Lófót áður en hún seig útaf skerinu og sökk.

„Við erum klárir í að hífa Guðrúnu Gísladóttur af botni og treystum okkur til að ljúka verkinu á þremur til fjórum vikum,“ segir Georg Eide hjá norska björgunarfyrirtækinu Eide Marine Services í framhaldi af því að þingmeirihluti á norska þinginu ætlar að knýja Svein Ludvigsen sjávarútvegsráðherra til að láta fjarlægja íslenska fjölveiðiskipið af hafsbotni.

Guðrún Gísladóttir KE-15 sökk í Nappstraumen við Lófót 19. júní 2002 en daginn áður sigldi skipið upp á sker við slysstaðinn. Í fjáraukalögum sem fjárlaganefnd Stórþingsins leggur fram í dag er kveðið á um að skipinu verði náð upp en Ludvigsen ákvað fyrir skömmu að björgunaraðgerðum skyldi hætta vegna skemmda. Kom í ljós að komin er 40 metra löng rifa á aðra hlið skipsins svo að sér inn í vélarrúm og lest. Ákvað hann að einungis skyldi reynt að tæma olíu úr skipinu en það síðan látið hvíla í votri gröf til frambúðar.

Sú ákvörðun ráðherrans að láta flakið liggja á 40 metra dýpi við Lófót mætti litlum vinsældum meðal sveitarstjórnarmanna í Nordland og víðar. Og hefur myndast meirihluti í Stórþinginu fyrir því að tekið verði fram fyrir hendur ráðherrans og skipið híft upp. Hefur fjárlaganefndin nú eyrnarmerkt 19 milljónir norskra verkinu. „Fáum við verkefnið getum við tekið skipið upp á þremur til fjórum vikum,“ segir Eide í samtali við norska útvarpið.

Nú þegar hafa tilraunir til að bjarga Guðrúnu Gísladóttur kostað norska ríkið um 30 milljónir norskra frá því björgunin var tekin úr höndum íslenskra aðilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert