Ástþór vill að forsetakosningum verði frestað

Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi, hefur sent Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu erindi vegna þess sem hann telur vera ritskoðun af hálfu Ríkisútvarpsins þegar viðtal við Dietrich Fischer var sent út í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Krefst Ástþór þess að forsetakosningunum verði frestað þar til búið sé að leysa úr þeim vandamálum sem upp séu komin við aðgengi frambjóðenda að fjölmiðlum.

Fram kemur í bréfi frá Fischer, sem fylgir með tilkynningu Ástþórs, að í viðtalinu sem hann átti við Sjónvarpið þegar hann var í heimsókn hér á landi 11.-13. maí, hafi hann m.a. tekið undir tillögur Ástþórs um að nýta íslenska forsætaembættið í þágu friðar, m.a. með því að setja hér á stofn alþjóðlega friðarstofnun og breyta varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli í höfuðstöðvar friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna. Segist Fischer hafa sagt að ef Ástþór yrði kjörinn forseti myndi hann nýta það tækifæri til að koma Íslandi á landakortið sem miðstöð friðar í heiminum. Fischer segir að allt þetta hafi verið klippt út úr viðtalinu og segir að með því sé verið að hindra frjáls skoðanaskipti á Íslandi.

Ástþór hefur óskað eftir fundi með útvarpsréttarnefnd til að ræða þetta mál. Þá segir hann að í undirbúningi eru kærur til umboðsmanns Alþingis, Hæstaréttar, yfirkjörstjórna og Alþjóða blaðamannasambandsins vegna málsins auk þess sem stefna verðir gefin út á RÚV að mæta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Segist Ástþór einnig áskilja sér allan rétt til að höfða mál til ógildingar forsetakosningunum fáist ekki án tafar úrlausn við þeirri aðför að lýðræðinu og kosningasvikum, sem hér séu að gerast, eins og segir í tilkynningu frá Ástþóri.

Heimasíða framboðs Ástþórs Magnússonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert