Financial Times fjallar um þjóðaratkvæðagreiðsluna

Breska dagblaðið Financial Times fjallar í dag um deilurnar, sem hafa verið hér á landi um fjölmiðlalögin, og segir að þær hafi leitt til verstu stjórnskipunarkreppu á Íslandi frá því landið varð lýðveldi fyrir 60 árum. Segir blaðið að deilurnar hafi blossað upp eftir að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, reyndi að koma í gegn ströngustu reglum í Evrópu um eignarhald á fjölmiðlum.

Málið vekur athygli í Bretlandi vegna þáttar Baugs Group, en fyrirtækið og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri, eru vel þekkt þar í landi. Fram kemur í FT að Baugur Group sé orðið stórveldi í breskri smásöluverslun og eigi leikfangakeðjuna Hamleys og tískufatakeðjuna Oasis. Þá hafi fyrirtækið tekið þátt í yfirtöku á skartgripakeðjunni Goldsmiths, eigi 22% hlut í Big Food Group og minni hlut í House of Fraser og Somerfields.

Áhrif fyrirtækisins í Bretlandi séu þó lítil í samanburði við Ísland, þar sem Baugur Group ráði yfir um 45% af smásölumarkaði og sé einnig umsvifamikið í öðrum atvinnugreinum, nú síðast fjölmiðlarekstri. Segir FTað þá hafi Davíð Oddssyni verið nóg boðið. Haft er eftir Illuga Gunnarssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, að nefnd, sem falið var að fjalla um eignarhald á fjölmiðlum, hafi komist að þeirri niðurstöðu að yfirburðastaða Baugs eigi sér ekki fordæmi í öðrum lýðræðisríkjum. Yfirfært yfir á Bretland væri þetta eins og að Tesco ætti helming sjónvarpsstöðva og tvö þriðju af dagblöðunum.

FT lýsir síðan fjölmiðlalögunum og segir að þau hafi þau áhrif að skipta verði Norðurljósum upp. Segir blaðið að starfsmenn Norðurljósa séu æfir og hefur eftir Illuga Jökulssyni, ritstjóra DV að aðalástæða laganna sé andúð forsætisráðherrans á stærsta hluthafa Baugs, sem hann líti á sem helsta óvin sinn.

Segir FT að eftir að lögin voru sett hafi það komið forsætisráðherra og öðrum stjórnmálamönnum í opna skjöldu, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafi neitað að staðfesta lögin á þeirri forsendu að ekki ríkti um þau nægileg sátt. Nú sé fyrir höndum fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi í sextíu ár um þessi lög.

Frétt Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert