Dagleg neysla á lakkrís getur verið varasöm

Dagleg neysla lakkríss getur verið varasöm jafnvel þótt einungis sé um lítið magn að ræða. Þetta kom fram í máli Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, sérfræðings í lyflækningum og innkirtlasjúkdómum, á þingi Félags íslenskra lyflækna sem haldið var á Sauðárkróki nýlega.

Helga starfar nú í Gautaborg en hún skrifaði doktorsritgerð um þetta efni árið 2002. Lengi hefur verið vitað að ofneysla lakkríss geti haft alvarlegar afleiðingar en nú hefur jafnframt verið sýnt fram á að regluleg neysla lítils magns geti verið varasöm.

Helga segir að upphaf rannsóknanna megi rekja til sjúkratilfellis sem var greint á Borgarspítalanum fyrir 13 árum. Þá kom þangað stúlka með lífshættulega lágt kalíum og of háan blóðþrýsting. Kalíum er ákveðið salt í blóðinu sem frumur líkamans nýta í samskiptum sínum og skortur á því getur leitt til slævðra taugaviðbragða, vöðvaslappleika og jafnvel alvarlegra hjartsláttartruflana.

Lakkríssýrurnar skipta máli

Í framhaldi af þessu fyrsta tilfelli gerðu Helga og samstarfsfélagar hennar tilraunir þar sem fólk var látið borða ákveðið magn af lakkrís í fjórar vikur. Þar kom fram marktækur munur á blóðþrýstingi. Helga hélt svo rannsóknum sínum áfram í Gautaborg og þær hafa nú leitt í ljós að það nægir að borða 50 grömm af lakkrís á dag í tvær vikur til þess að fá marktækar breytingar á blóðþrýstingi og söltum í líkamanum. "Við erum búin að sýna fram á að það nægir að borða lítið magn á dag. Það sem skiptir þó mestu máli er magn lakkríssýrunnar í lakkrísnum en það er aldrei tilgreint á umbúðum," segir Helga og bætir við að það standi vonandi til bóta þar sem Evrópusambandið sé að skoða þessi mál.

Að sögn Helgu hafa nýlega verið greind tvö tilfelli hér á Íslandi þar sem blóðþrýstingur er of hár og kalíum lífshættulega lágt.

Rannsóknir Helgu sýndu jafnframt fram á að blóðþrýstingur fólks sem er með háan blóðþrýsting fyrir hækkar a.m.k. tvöfalt á við aðra við að borða lakkrís. "Fólk með háan blóðþrýsting er ennþá næmara fyrir þessari hömlun á ensímkerfið sem lakkrís veldur og því á fólk með háan blóðþrýsting helst ekki að neyta lakkríss. Það á í raun að gilda það sama um lakkrís og alkóhól og annað slíkt. Ekki neyta þess daglega og ekki í of miklu magni."

Lítill munur milli einstaklinga

Helga segir að lengi hafi því verið haldið fram að það sé eingöngu óhófleg neysla á lakkrís sem sé varasöm og jafnvel að einungis sumir einstaklingar sýni einkenni. "Nú erum við búin að reikna það út að það er ekkert óskaplega mikill munur á milli einstaklinga nema hjá þeim sem eru með mjög háan blóðþrýsting," segir Helga og bætir við að of hár blóðþrýstingur geti aukið líkur til dæmis á heilablóðfalli. "Fólk er kannski viðkvæmara fyrir því að kalíumið lækki. Það fær lamanir í vöðvana og þá fyrst og fremst vöðvana sem eru nær líkamanum. Það byrjar oft með því að það getur ekki gengið eða á erfitt með að beita höndum."

Helga segir að lakkrís sé líka varasamur fyrir fólk með lágan blóðþrýsting. Mikil neysla geti jafnvel leitt til bjúgs. "Ein stúlka í rannsókninni sem var látin borða 100 grömm á dag í fjórar vikur þyngdist um 6,8 kg. Það var allt vökvi sem rann af henni þegar hún hætti að borða lakkrís," segir Helga og bætir við að lakkrís geti jafnvel haft áhrif á ensímkerfi í líkamanum í 2-4 mánuði eftir að neyslu hans er hætt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka