Dorritt eldar með breskum sjónvarpskokki á Bessastöðum

Þekktur breskur sjónvarpskokkur, Mike Robinson, mætir í eldhúsið hjá frú Dorritt Moussaieff á Bessastöðum næstkomandi föstudag. Þar ætla þau að elda lambakjöt að hætti húsmóðurinnar.

Þátturinn verður sendur út á sjónvarpsstöðinni UK Food, sem er hluti af samsteypu sjónvarpsstöðva sem nefnast UKTV og eru í eigu BBC og Flextech television. Alls horfa 19 milljónir manna á sjónvarpsrásir UKTV í hverjum mánuði.

Þáttagerðarmenn UK Food koma hingað til lands á vegum Iceland Express. Þeir munu framleiða fjóra staka þætti um íslenska matargerð og verða þeir kryddaðir með myndum af íslensku mannlífi og landslagi. Ennfremur verður því gerð góð skil að fargjöld til Íslands hafa lækkað verulega með tilkomu Iceland Express og því lítið mál fyrir Breta að koma hingað til að gæða sér á íslenskum mat.

Auk þáttarins með forsetafrúnni, þar sem lambakjöt verður í aðalhlutverki, mun UK Food mæta á víkingahátíðina í Hafnarfirði, þar sem fjallað verður um hákarlaverkun og íslenska skyrið. Villtur íslenskur lax verður í aðahlutverki í einum ættinum og skötuselur í öðrum. Bresku þáttagerðarmennirnir ætla jafnframt að gera hátíðahöldunum á 17. júní góð skil, ekki síst skrúðgöngum dagsins, samnkvæmt upplýsingum frá Icelandic Express.

Þættirnir frá Íslandi verða sýndir sem innslög í eina matargerðarþættinum sem sýndur er í beinni útsendingu í bresku sjónvarpi. Sá ber nafnið Good Food og er sýndur daglega á UK Food sjónvarpsstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert