Baldur segist munu draga úr orðuveitingum

Baldur á fundi með starfsmönnum Íslandspósts.
Baldur á fundi með starfsmönnum Íslandspósts. mbl.is

Baldur Ágústsson forsetaframbjóðandi heimsótti starfsfólk Íslandspósts í hádeginu í dag. Kynnti framboð sitt og svaraði spurningum ásamt því sem hann sagði frá því þegar hann vann fyrir Póst & síma, fyrirrennara Íslandspósts.

Í kvöld heldur Baldur framboðsfund í Ránni á Reykjanesbæ. Á sunnudaginn var Baldur á Selfossi með framboðsfund en samkvæmt upplýsingum frá stuðningsmönnum hans vildi fólk helst vita hver stefna Baldurs yrði hvað varðar orðuveitingar. Svaraði því til að næði hann kjöri myndi hann líklega draga eitthvað úr orðuveitingum; engin sérstök ástæða væri til þess að sæma fólki orðu fyrir það eitt að mæta í vinnuna sína.

Þó sagði Baldur að ástæða væri til þess að sæma fólk orðu fyrir að leggja sig í hættu til að bjarga öðrum. Þá minntist Baldur á hvunndagshetjurnar sem margar hverjar gleymast, s.s. ekkjur og ekklar sem þurfa að sjá heilum heimilum fyrir farborða og hafa kannski ekki úr miklu að spinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert