Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) átelur ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta um að synja lögum um eignarhald á fjölmiðlum staðfestingar og segir hana algerlega órökstudda.
„Með fordæmalausri ákvörðun um að synja lögum frá Alþingi staðfestingar hefur Ólafur Ragnar Grímsson dregið embætti forseta Íslands inn í átök stjórnmálanna. Athygli vekur að Ólafur hefur enn ekki fært nein efnisleg rök fyrir ákvörðun sinni. Ljóst er að ýmis mál hafa vakið meiri deilur í þjóðfélaginu en umrædd lög.
Þá hefur Ólafur sjálfur lýst því yfir að það sé íslenskra dómstóla að meta stjórnarskrárígildi laga. Ákvörðun Ólafs veldur því nokkurri óvissu í stjórnskipan ríkisins, enda liggur ekkert fyrir um það við hvaða aðstæður lögum verður synjað um staðfestingu í framtíðinni,“ segir í samþykkt SUS.