Óvissa um afdrif tillögu um að Guðrún Gísladóttir verði hífð upp

Guðrún Gísladóttir KE á strandstað en skipuð rann af skerinu …
Guðrún Gísladóttir KE á strandstað en skipuð rann af skerinu og sökk. mbl.is

Óvissa ríkir um afdrif tillögu sem lögð verður fram í norska þinginu í dag þess efnis að íslenska fjölveiðiskipið Guðrún Gísladóttir KE-15 verði híft upp af hafsbotni við Lófót í Noregi og fjarlægt, að sögn norska útvarpsins.

Allir þingmenn frá Nordland-svæðinu segjast við stöðina ætla að styðja tillöguna. Einungis Ivar Kristiansen úr Hægriflokknum hefur ekki gert upp hug sinn, enda segist hann ekki hafa séð tillögu Hill Mörtu Solberg, þingmanns Verkamannaflokksins.

„Ég get ekki tekið afstöðu til tillögu sem ég hef ekki séð og tillögu sem ekkert fjármagn fylgir, hún getur ekki verið mikils virði,“ segir Kristiansen við NRK.

Solberg segir fjárhagsþátt málsins í höfn. Hún vill að flakið verði híft upp og fargað í sumar og óttast að Svein Ludvigsen sjávarútvegsráðherra fari ekki að óskum þingsins nema ályktað verði um það sérstaklega. Þess vegna leggur hún fram tillögu sína en áður hefur fjármagni verið úthlutað til verksins á aukafjárlögum.

Hægriflokkurinn í Nordland hefur ályktað á fyrra stigi að flak Guðrúnar skuli fjarlægt af hafsbotni en sjávarútvegsráðherra flokksins hefur nýverið ákveðið hið gagnstæða.

Annar þingmaður Hægriflokksins, Søren Fredrik Voie, segir við blaðið Avisa Nordland í dag, að hann muni greiða atkvæði gegn tillögu um að Guðrún Gísladóttir verði hífð upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert