Stefna Reykjavíkurborgar í ferðamálum næstu sex ár er kynnt í nýju riti Höfuðborgarstofu undir heitinu Ferðamannaborgin Reykjavík. Markmiðið er að Reykjavík verði eftirsóttur áfangastaður allt árið um kring og rennt verði styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf og menningarstarf í tengslum við ferðaþjónustu á Íslandi.
Meðal verkefna er að stefna að titlinum „hreinasta höfuðborg Evrópu“, stórbæta aðstöðu skemmtiferðaskipa með nýjum viðlegukanti við Sæbraut, kanna möguleika á að koma upp heilsulóni og ferðaþjónustu á Hellisheiði og setja upp Parísarhjól í Laugardal í tengslum við þróun gæðaafþreyingar fyrir fjölskyldur. Fleiri verkefni tengjast Laugardalnum sem verður miðstöð heilsutengdrar ferðaþjónustu í höfuðborginni.
Áhersla er lögð á mikla uppbyggingu innviða borgarinnar, s.s. með því að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús með hóteli við Austurhöfn. Þá er áformað að bæta merkingar og samgöngur. Jafnframt er yfirlýst markmið að nýta betur hreinleika landsins og heita vatnið í Reykjavík, gera borgina að skiptihöfn fyrir skemmtiferðaskip og gera íslenska menningu sýnilegri.
Meðal mælanlegra markmiða í ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar er að erlendum ferðamönnum fjölgi um 7% árlega og að þeir verði orðnir um hálf milljón árið 2010. Þá er stefnt að því að dvalartími ferðamanna í Reykjavík lengist á tímabilinu og að þeim fjölgi hlutfallslega meira á lágannatíma, meðalnýting á hótelum í Reykjavík verði ekki undir 70% í lok tímabilsins, að farþegum skemmtiferðaskipa fjölgi um 7% árlega og afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu batni.
Einnig er stefnt að því að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu aukist um 10% á ári og verði orðnar 65,5 milljarðar árið 2010. Síðast en ekki síst er stefnt að því að meira en 80% erlendra ferðamanna verði ánægð með dvölina í Reykjavík.
Meginstoðir ferðamálastefnunnar eru náttúra, ráðstefnuhald og menning og stefnumótunin endurspeglar þessi meginmarkmið. Er stefnunni sett sérstakt slagorð og fengu einkennisorðin Pure Energy mestan hljómgrunn í samráði við erlenda samstarfsaðila. Slagorðinu er ætlað að vísa til þeirrar hreinu orku sem býr í Reykjavík í fleiri en einni merkingu.
Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss í Austurhöfninni er eitt stærsta verkefnið og einstaka fjárfestingin sem framundan er í ferðaþjónstu í Reykjavík.