Fjórtán hrefnur eru komnar á land frá því vísindaveiðar Hafrannsóknastofnunar hófust 3. júní. Flest dýranna hafa náðst í veiðihólfum suðvestanlands, að sögn Gísla Víkingssonar, verkefnisstjóra veiðanna hjá stofnuninni.
Þrír bátar stunda veiðarnar, að sögn Gísla, og hefur sá aflahæsti veitt sjö hrefnur. „Veiðarnar hafa gengið vonum framar, vegna veðurs hafa flest dýranna náðst suðvestanlands, þó er ekki fullveitt í neinu hólfanna níu,“ sagði Gísli við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is).
Alls ákvað sjávarútvegsráðuneytið að heimila veiði á 25 hrefnum í ár.