Hákon Magnús krónprins lagði út af boðskap Íslendingasagna

Hákon Magnús og Mette-Marit á Bessastöðum í dag.
Hákon Magnús og Mette-Marit á Bessastöðum í dag. mbl.is/Þorkell

Hákon Magnús krónprins Noregs sagði í hátíðarkvöldverði forseta Íslands á Bessastöðum í kvöld, að boðskapur Íslendingasagna væri sá, að heiður og kjarkur geti skipt meira máli en lífið sjálft.

Prinsinn vitnaði til ummæla Gunnars á Hlíðarenda er hann sneri hesti sínum í stað þess að halda utan og sagði yfirlýsingu hans bera vitni um þá ást hans á landi sínu og býli sem menn gætu enn samsamað sig við. Hann sagði marga Norðmenn kynnast Íslandi fyrst við lestur Brennu-Njálssögu.

Ræða Hákonar Magnúsar krónprins fer hér á eftir í heild sinni:

„Forseti Íslands,
Frú Dorrit Moussaieff,
háttvirta samkoma,
ágætu íslensku og norsku vinir.

Mig langar til að byrja á því að þakka fyrir þær stórkostlegu móttökur sem krónprinsessan og ég höfum fengið hér á Íslandi. Okkur hefur liðið eins og heima hjá okkur síðan við lentum á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis.

Það er engin tilviljun að Norðmönnum finnst það næstum því eins og að koma til heimahaganna að koma til Íslands, þótt það kunni ef til vill að virðast undarlegt við fyrstu sýn.

„Fögur er hlíðin, svo að mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst,
bleikir akrar og slegin tún,
og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi.”

Svo mælti Gunnar frá Hlíðarenda áður en hann sneri hesti sínum og hélt heim á leið á ný til að berjast í stað þess að flýja. Margir Norðmenn kynnast Íslandi fyrst við lestur Brennu-Njálssögu. Boðskapur Íslendingasagna er sá að heiður og kjarkur geti skipt meira máli en lífið sjálft. Okkur gæti virst sú hugsun framandi en yfirlýsing Gunnars ber vitni um þá ást hans á landi sínu og býli sem við getum samsamað okkur við. Íslendingar og Norðmenn eiga það líka sameiginlegt að hafa allt fram á okkar daga haft þörf fyrir að halda að heiman og kynna sér aðra heimshluta.

Nú er komið að mér að halda í vesturátt eins og faðir minn og afi gerðu áður og mér er það ánægjuefni að hafa krónprinsessuna mér við hlið. Ísland og Noregur eru landfræðilega séð á ystu mörkum hins byggilega heims en Golfstraumurinn og auðævi hafsins hafa gert okkur kleift að móta tvö af háþróuðustu og auðugustu samfélögum heims. Bæði Íslendingar og Norðmenn leggja nú drjúgt af mörkum til menningar- og tækniþróunar í hnattrænu samhengi.

Íslendingar fagna í ár 100 ára heimastjórn og á næsta ári fagna Norðmenn því að öld er liðin síðan ríkjasambandinu við Svíþjóð var slitið á friðsamlegan hátt. Bæði ríkin eru að vísu ung í sögulegu samhengi séð en engu að síður má rekja þjóðræði okkar rúmlega 1100 ár aftur í tímann.

Óvíða er að finna jafnöflug tengsl á milli tveggja landa eins og Noregs og Íslands. Í kílómetrum talið er fjarlægðin reyndar allnokkur en við eigum okkur öflugan sameiginlegan uppruna, hefðir og sögu. Því verður ekki á móti mælt að við erum bræðraþjóðir og verðum það áfram.

Íslendingar og Norðmenn standa einnig hlið við hlið í alþjóðlegu samstarfi okkar tíma. Aðildin að NATÓ hefur verið grundvöllur öryggis landanna allt frá því að síðari heimsstyrjöld lauk. Bæði ríkin standa utan Evrópusambandsins en eiga náið samstarf við ESB innan EES. EES-samningurinn hefur tryggt aðild okkar að innra markaði ESB í rúman áratug. Norðmenn og Íslendingar hafa einnig sameinast í því verkefni að tryggja að lifandi auðlindir hafsins verði nýttar á sjálfbæran hátt.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með kæru þakklæti fyrir að hafa verið boðið að heimsækja Ísland og að njóta þessa glæsilega kvöldverðar. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að bera forsetahjónum Íslands og þar með þjóðinni allri bestu kveðjur frá konungi og drottningu Noregs.

Ég bið gesti um að lyfta glösum fyrir órjúfanlegum böndum á milli frændþjóða Íslands og Noregs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka