Starfshópur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarp segir í skýrslu sinni til ríkisstjórnarinnar, að rík efnisleg rök standi til þess að þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar sæti skilyrðum með tilliti til þátttöku og/eða að meirihlutann myndi ákveðið hlutfall atkvæðisbærra manna.
Segir starfshópurinn að telja megi sennilegt að heimilt sé að setja almenn lög nú um hófleg skilyrði um fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar, sem ekki feli í sér neins konar fyrirfarandi tálmun á beitingu atkvæðisréttar, eins og komist er að orði.
Starfshópurinn segir að þó svo halda megi því fram að unnt sé að láta fara fram atkvæðagreiðslu á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár án þess að sett séu sérstök skilyrði um þátttöku, aukinn meirihluta og annað slíkt, megi telja, að veruleg rök séu engu að síður til þess að setja slíkri atkvæðagreiðslu tiltekin skilyrði, enda samræmist þau lýðræðislegum markmiðum stjórnarskrárinnar og setji atkvæðagreiðslunni ekki fyrirfarandi tálmanir.
Segir hópurinn að sjónarmið í þessa veru hafi komið fram hjá flestum þeim álitsgjöfum sem starfshópurinn leitaði til, til fyrirkomulags þjóðaratkvæðagreiðslna sem fara fram erlendis við aðstæður sem helst má telja sambærilegar, sem og fleiri atriða sem rakin hafa verið hér að framan.
Á hinn bóginn væri ljóst að ekki sé vafalaust að slíkur áskilnaður í lögum nú stæðist tilteknar stjórnskipulegar formkröfur. Hafi mismunandi skoðanir m.a. komið fram um það efni hjá löglærðum álitsgjöfum sem fyrir starfshópinn komu.
Segir starfshópurinn það ljóst að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar geti ekki talist fela í sér endanlega afstöðu stjórnarskrárgjafans til fyrirkomulags atkvæðagreiðslu á grundvelli ákvæðisins. Þá bendi lögskýringargögn afdráttarlaust til þess, að vegna aðstæðna á þeim tíma þegar ákvæðið var lögfest hafi stjórnarskrárgjafinn ekki fjallað um nánara fyrirkomulag á atkvæðagreiðslunni. Af þessu leiðir að almenni löggjafinn þurfi að mæla fyrir um reglur sem nánar skýra framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, en slíkt verði að teljast í samræmi við almennar lögskýringarkenningar á þessu sviði, þ.e. að almenna löggjafanum sé heimilt að mæla fyrir um slíkar reglur, enda gangi þær ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og þeim meginreglum sem hún byggir á.
„Óumdeilt er að reglur stjórnarskrárinnar um þingræði teljast til grunnreglna íslenskrar stjórnskipunar. Í því fulltrúalýðræði sem þingræðisreglan byggir á felst jafnframt að fyrirkomulag það sem mælt er fyrir um í 26. gr. telst undantekningarregla að þessu leyti. Ætla verður að það væri andstætt þessum meginreglum stjórnarskrár að litlum hluta kjósenda væri falið það vald að afnema lög sem sett hafa verið á stjórnskipulegan hátt samkvæmt meginreglum stjórnarskrárinnar um lagasetningarvald,“ segir í niðurstöðum starfshópsins.