Davíð boðaður á fund Bush í næstu viku

Davíð ræðir við Bush á ráðstefnu leiðtoga NATO í Tyrklandi …
Davíð ræðir við Bush á ráðstefnu leiðtoga NATO í Tyrklandi í vikunni. Að auki sjást Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, og Chirac, Frakklandsforseti á myndinni. AP

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, mun eiga fund með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í Washington 6. júlí n.k, að því er greint er frá á vef forsætisráðuneytisins. Bandaríkjaforseti býður til fundarins, sem verður haldinn í skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu. Á fundinum verður rætt um alþjóðamál og samskipti landanna, að því er segir á vef forsætisráðuneytisins.

Í viðtali við RÚV sagði Davíð að ekki lægju fyrir fyrirhugaðar breytingar á varnarsamningnum. „Við höfum hins vegar lagt áherslu á það að þotur verði áfram til staðar á vellinum og við höfum talið að ef þessháttar varnir verði ekki sé ljóst að það verði erfitt að líta svo á að varnarsamningurinn sé að óbreyttu til staðar. Þetta er að okkar mati ekki einhliða varnarsamningur fyrir Bandaríkin heldur tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna,“ sagði Davíð meðal annars.

Sagði hann ólíklegt að lausn fyndist á fundinum 6. júlí en sagðist vona að fyrst forseti Bandaríkjanna boðaði til fundarins, kynni lausn á ágreiningi um varnarmálin að vera í sjónmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert