Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að ágreiningur stjórnarflokkanna um frumvarp um þjóðaratkvæði vegna laga um eignarhald á fjölmiðlum sé ekki verulegur. Segir hann ekki bera mikið á milli um efnisatriði þess, þar á meðal um þátttökulágmark í atkvæðagreiðslunni, en vill þó ekki frekar tjá sig um ágreining flokkanna.
Ekki tókst að ganga frá frumvarpinu um þjóðaratkvæðið á fundi ríkisstjórnarinnar sem hófst klukkan 14. Tæpum stundarfjórðungi seinna gengu ráðherrar Framsóknarflokksins af fundi og hurfu úr stjórnarráðinu. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði við það tækifæri að áfram yrði unnið í málinu fram eftir degi.
Ráðherrar sjálfstæðisflokksins sátu áfram í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar í um klukkustund í viðbót. Að því búnu sagðist Davíð Oddsson ekki búast við nýjum ríkisstjórnarfundi fyrr en í fyrramálið. Sagði hann ágreining flokkanna óverulegan og tíminn yrði notaður til að ná niðurstöðu.
Halldór Ásgrímsson sagði er hann kom af fundi að verið væri að vinna í málinu. Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu væri ekki endanlega tilbúið, m.a. þar sem þeir Davíð Oddsson hefðu báðir verið í útlöndum. Sagðist hann ekki vilja tala um ágreining og bað menn um að sýna þolinmæði meðan haldið væri áfram að fullvinna frumvarpið.
Ríkisstjórnarfundur um málið var upphaflega boðaður klukkan 10:30 í morgun en var frestað á síðustu stundu til klukkan 14.