Fjölmiðlalögin afturkölluð og nýtt frumvarp lagt fyrir sumarþing

Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna.
Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna. mbl.is/ÞÖK

Ákveðið hefur verið að afturkalla fjölmiðlalögin, sem sett voru í vor, og leggja fram nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum á sumarþinginu sem hefst á morgun. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra tilkynntu þetta eftir þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins í kvöld en áður hafði ríkisstjórnin fjallað um málið.

Davíð Oddsson sagði að þessi hugmynd hefði komið upp fyrir tveimur dögum í viðræðum þeirra Halldórs og þetta væri ákveðin leið til að freista þess að ná sátt um málið. Davíð sagði að þingflokkur sjálfstæðismanna hefði samþykkt þessa tillögu samhljóða á fundinum í kvöld og einnig hefði þetta verið samþykkt einróma í ríkisstjórn þar sem allir ráðherrar voru viðstaddir utan Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem er erlendis. Davíð sagðist hafa tilkynnt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, um þessa niðurstöðu, og einnig hefði hann reynt að ná tali af stjórnarandstöðunni og náðst hefði í fulltrúa Samfylkingarinnar í þann mund sem þingflokksfundirnir hófust.

Halldór sagði að þetta þýði að sérstökum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu verði ýtt til hliðar og reynt verði að skapa þverpólitíska sátt um hið nýja frumvarp. Sagði Halldór, að gert væri ráð fyrir að í nýja fjölmiðlafrumvarpinu verði hlutfall, sem markaðsráðandi fyrirtæki í öðrum rekstri geta átt í ljósvakamiðli hækkað úr 5% í 10%. Þá er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2007 þegar nýtt þing kemur saman eftir kosningar en í fjölmiðlalögunum sem sett voru í vor var gert ráð fyrir að þau tækju gildi um mitt ár 2006. Sagði Halldór að stjórnarandstöðunni verði boðið að koma að starfi fjölmiðlanefndar sem á að fara yfir lagaumhverfi fjölmiðla.

Davíð sagði, að fullkomin lögfræðileg óvissa hefði ríkt um málið, bæði varðandi túlkun á 26. grein stjórnarskrárinnar, sem heimilar forseta Íslands að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu, og einnig um skilyrði fyrir þátttöku í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því að fresta gildistökunni til 2007 væri einnig í raun verið að leggja málið í dóm kjósenda, sem gætu sagt álit sitt á málinu í næstu kosningum.

Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagði að einhugur hefði ríkt á fundinum í kvöld um þessa niðurstöðu.

Áframhaldandi undanhald
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í fréttum Sjónvarpsins, að um væri að ræða töluverðan sigur fyrir þá sem barist hefðu gegn fjölmiðlalögunum okkur en um væri að ræða áframhaldandi undanhald þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar enda færu þar dauðhræddir menn.

Össur sagði, að sér heyrðist að nýtt fjölmiðlafrumvarp væri ósköp svipað lögunum sem ætti að fella úr gildi og sagðist hann draga í efa að þau lög muni standast frekar stjórnarskrána en þau gömlu. Hann sagði að þessari atburðarás væri ætlað að bjarga andlitinu á Davíð Oddssyni og ríkisstjórnin hefði varla tök á málunum lengur. Hún væri að skjóta sér undan þeirri heimild sem þjóðin hefði til að segja álit sitt á fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þessir háu herrar þora ekki að koma með sitt mál og leggja það fyrir þjóðina," sagði Össur og bætti við að það hefði legið fyrir að þeir hefðu skíttapað þessum kosningum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sagði við Sjónvarpið, að þeir Halldór og Davíð hefðu ekki mátt til þess hugsa að tapa kosningunni um fjölmiðlafrumvarpið og þeir urðu að lokum orðið að játa sig sigraða. Sagði Steingrímur, að um væri að ræða uppgjöf og endir við hæfi á þessu dæmalausa máli.

Steingrímur sagði að væntanlega yrði það fyrsta verk þingsins, sem hefst á morgun, að fella fjölmiðlalögin úr gildi. Þingmenn VG höfnuðu því ekki að setjast niður og skoða löggjöf um fjölmiðla enda verði byrjað með hreint borð og engum væri gerður greiði með því leggja upp í aðra vitleysisferð á við þá sem nú væri að ljúka. „Við munum fyrst og fremst krefjast þess, ef bjóða á upp á samstarf um þessa hluti, að til þess verði skapaðar aðstæður," sagði Steingrímur.

Halldór Ásgrímsson, utanríksiráðherra, ræðir við fréttamenn.
Halldór Ásgrímsson, utanríksiráðherra, ræðir við fréttamenn. mbl.is/Jim Smart
Frá ríkisstjórnarfundinum í kvöld.
Frá ríkisstjórnarfundinum í kvöld. mbl.is/Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert