Um 15 þúsund gripir fundnir við fornleifarannsóknir á Hólum í Hjaltadal

Fornleifauppgröftur við Hóla í Hjaltadal hófst að nýju fyrir nokkrum dögum en þetta er þriðja sumarið sem grafið er á þessum gamla biskupsstóli. Við uppgröftinn hefur m.a. fundist prentsmiðja frá 17. öld og hús frá upphafsárum biskupsstólsins, þ.e. frá því snemma á 12. öld. Yfir 15 þúsund gripir af ýmsum toga hafa komið í ljós við rannsóknina.

Í júní hefur hópur fornleifafræðinga og nema verið við störf á staðnum, en þá fór fram vettvangsskóli fyrir nema í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Fengu nemendurnir að taka þátt í uppgreftinum, kynnast aðferðum og störfum fornleifafræðinga á vettvangi sem og að hlýða á fyrirlestra. Fimmtán nemar voru í vettvangsskólanum í ár og nokkrir þeirra munu starfa áfram við rannsóknina á Hólum í sumar auk 33 sérfræðinga á ýmsum sviðum frá fjölmörgum löndum, t.d. Grikklandi og Úkraínu. Munu þeir einnig starfa við uppgröft við Kolkuós en að rannsóknunum standa þrjár meginstofnanir, Þjóðminjasafn Íslands, Byggðasafn Skagfirðinga og Hólaskóli.

Svæðið stækkað

Í sumar verður sjónum í rannsókninni á Hólum einna helst beint að elsta húsinu sem fundist hefur á staðnum, frá þeim tíma sem biskupsstóllinn var settur, árið 1106, að sögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings sem stýrir rannsókninni. Húsið fannst árið 2002 og er ekki að fullu vitað um hvers konar hús er að ræða. "Þá komum við niður á sjálft eldstæðið sem er einhvers konar langeldur og við gátum aldursgreint að það sé frá 12. öld," segir Ragnheiður um fundinn.

Þá hefur fundist prentsmiðja á svæðinu sem er frá 17. öld. "Við ætlum í sumar að stækka svæðið í kringum prentsmiðjuna. Það eiga fleiri hús að hafa tilheyrt henni og við ætlum að reyna að sjá hvort þau koma ekki í ljós og fá þar með meiri skilning á því hvernig prentverk hefur farið fram fyrr á tímum." Ragnheiður segir að vonir standi til að hægt verði að komast að leifum fyrstu prentsmiðjunnar, sem reist var um 1530 á Hólum.

Auk sjálfs fornleifauppgraftarins fer fram heilmikil greiningarvinna á staðnum sem unnin er af ýmsum sérfræðingum, t.d. plöntusérfræðingi og dönskum sérfræðingum í beinagreiningum, á stórri rannsóknarstofu sem er nú á Hólum. Öll gögn um muni og annað sem í ljós kemur í rannsókninni eru samstundis sett inn í tölvuforrit sem auðveldar alla greiningu til muna.

Þá verður haldin ráðstefna á Hólum 7. ágúst nk. um Hólarannsóknina sem og hugsanlega aðrar fornleifarannsóknir sem nú standa yfir með styrkjum frá Kristnihátíðarsjóði.

Almenningur fær að fylgjast með

Nýsköpunarverkefni sem miðast að því að gera fornleifarannsóknir aðgengilegar fyrir börn á aldrinum 4-12 ára hefur verið unnið samhliða rannsókninni. Út er komin verkefnabók og litabók og verður efni tengt verkefninu innan skamms sett á Netið þar sem einnig er hægt að fylgjast með gangi rannsóknarinnar á Hólum í sumar.

25. júlí verður fornleifadagur á Hólum, þar sem almenningur getur komið og kynnt sér rannsóknina og fengið að taka þátt í henni. "Börnin fá að sigta og skoða rannsóknarstofuna," segir Ragnheiður. Þá er alla fimmtudaga og laugardaga kynning á Hólarannsókninni fyrir almenning og leiðsögn er hægt að fá um staðinn alla daga vikunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert