Hlutur markaðsráðandi fyrirtækja verði 10%

Ríkisstjórnin og þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykktu einróma í gærkvöld að leggja fram nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum á sumarþinginu, sem hefst í dag, og afturkalla nýsamþykkt fjölmiðlalög. Um leið var öll vinna við frumvarpsgerð um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu lögð til hliðar.

Tvær meginbreytingar eru gerðar á fjölmiðlalögunum í nýju frumvarpi, þ.e. breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum. Annars vegar er hámark eignarhlutar markaðsráðandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í fyrirtæki í útvarpsrekstri hækkað úr 5 í 10% og hins vegar er gildistöku frumvarpsins frestað um rúmt ár frá fyrra frumvarpi, eða til 1. september árið 2007.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sögðu að loknum þingflokksfundum að einhugur hefði ríkt um þessa tilhögun. Forseta Íslands var gert kunnugt um nýtt lagafrumvarp, sem og stjórnarandstöðuflokkunum. Verður frumvarpið sent forseta til undirritunar í dag, að sögn forsætisráðherra. Upplýsti Davíð m.a. að fjölmiðlanefndin svonefnda myndi starfa áfram og stjórnarandstöðunni yrði boðin þátttaka þar þangað til lögin tækju gildi haustið 2007.

Komið enn frekar til móts við sjónarmið um meðalhóf

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því að hækka hámark eignarhlutar sé enn frekar en í gildandi lögum komið til móts við sjónarmið um að gæta þurfi ákveðins meðalhófs við setningu takmarkana af þessu tagi, "jafnvel þótt í engu hafi dregið úr gildi þeirra sjónarmiða, sem leiða til þess, að þær þurfi að setja", eins og segir í greinargerðinni.

Um seinni meginbreytinguna segir í greinargerðinni að útvarpsleyfishöfum og öðrum sem lögin snerta sé með þessu gefinn enn rýmri tími til að laga sig að þeim skilyrðum sem lögin setji, með því að gildistaka frumvarpsins sé færð fram um ríflega þrjú ár frá gildandi lögum.

Til að fyllsta jafnræðis sé gætt meðal fyrirtækja í þessum rekstri sé á móti gert ráð fyrir að þau lagi sig öll að þessum kröfum innan þessara tímamarka. Síðan segir í greinargerðinni:

"Í samræmi við þessa síðarnefndu breytingu er loks lagt til að áðurnefnd lög nr. 48/2004 falli úr gildi við gildistöku frumvarps þessa, verði það að lögum. Af því leiðir að ekki gerist þörf á að bera þau sérstaklega undir þjóðaratkvæði, enda gefst kjósendum kostur á að lýsa viðhorfi sínu til löggjafar af þessu tagi og þess meirihluta, sem að henni stendur, í almennum kosningum áður en lögin öðlast gildi haustið 2007. Áður en til þess kemur hefur þá nýkjörið þing öll tækifæri til að fjalla um þau á ný, breyta þeim og bæta eða jafnvel fella brott."

Óbreytt eru í frumvarpinu ákvæði um að óheimilt sé að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu samstæðu er útgefandi dagblaðs eða á hlut í útgefanda dagblaðs. Aðrar breytingar eru ekki teljanlegar frá fyrri lögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert