Skrifað var í dag undir svokallaðan vaxtarsamning fyrir Eyjafjarðarsvæðið, en gerð samningsins er hluti af byggðaáætlun stjórnvalda og þeirri áherslu sem þar er lögð á Eyjafjarðarsvæðið. Vaxtarsamningurinn tekur til tímabilsins 2004 til 2007 og byggir á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða með uppbyggingu klasa.
„Kjarni málsins er að styrkja hagvöxt með markaðstengdum áherslum,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eftir að samningurinn hafði verið undirritaður. Ráðherra sagði hér um að ræða frumkvöðlastarf í atvinnu- og byggðamálum, sér dytti ekki í hug að einhverjar töfralausnir væru í samningnum en hér væri skynsamleg leið farin.
Í skýrslu nefndar um byggðaþróun Eyjafjarðarsvæðisins, sem kynnt var fyrir nokkru, var lagt til að gerður yrði svokallaður vaxtarsamningur frá 2004 til 2007 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða með uppbyggingu klasa. Lögð er m.a. áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis, m.a. í Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna.
Umræddur samningur er nú fullgerður en unnið var að honum í nánu samráði við ýmsa á Eyjafjarðarsvæðinu. Og vert er að geta þess að reiknað er með að nálæg svæði utan Eyjafjarðarsvæðisins muni einnig njóta þessa starfs með beinum og óbeinum hætti.
Heildarfjármagn til reksturs samningsins þessi tæp 4 ár er áætlað 177,5 millj. kr. – þar af komi um helmingur frá sveitarfélögum á svæðinu, einkaaðilum og stofnunum – og um helmingur frá stjórnvöldum, þ.e. byggðaáætlun í umsjón iðnaðarráðuneytis.
Þannig leggur iðnaðarráðuneytið fyrir hönd stjórnvalda til 90 millj. kr. þar sem byggt er á fjárheimildum innan ramma byggðaáætlunar sem þegar eru fyrir hendi fyrir árin 2004–5 og væntanlegri byggðaáætlun fyrir árin 2006–7, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Mótframlag að upphæð 87,5millj. kr. verður fjármagnað af öðrum aðilum samningsins þ.e. Akureyrarbæ, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fyrir hönd sveitarfélaga í Eyjafirði, Byggðastofnun, Háskólanum á Akureyri, Iðntæknistofnun Íslands, Kaupfélagi Eyfirðinga, Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi og Útflutningsráði Íslands. Framlag stofnana verður að mestu í formi sérfræðivinnu. Auk þessara aðila eru stéttarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu einnig aðilar að væntanlegum samningi.
Þeir sem skrifuðu undir samninginn í dag, auk ráðherra, voru Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Guðmundsson frá Byggðastofnun, Hallgrímur Jónasson, Iðntæknistofnun, Jón Ásbergsson, Útflutningsráði, Guðmundur Heiðar Frímannsson frá Háskólanum á Akureyri, Ásgeir Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju á Akureyri og Magnús Ásgeirsson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.