Guðrún Gísladóttir KE-15 yfirgefin

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg.
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg. mbl.is

Norska strandgæslan lítur nú svo á að hreinsun flaks fjölveiðiskipsins Guðrúnar Gísladóttur KE-15 sé lokið og að ekki verði frekar aðhafst við það. Flakið muni nú liggja um ókomna framtíð í sinni votu gröf á 40 metra dýpi í Nappstraumen við Lófót Í Norður-Noregi þar sem skipaumferð stafi ekki lengur nein hætta af því.

Þannig segir í tilkynningu strandgæslunnar í framhaldi af því að tankar Guðrúnar hafa verið tæmdir af olíu. Í þeim reyndust aðeins 86 tonn af í stað tæplega 400 og segir strandgæslan líklegast að það sem á vanti hafi lekið úr tönkunum vegna tilfæringa við skipið er þess var freistað að ná því upp.

Tæpir 25 mánuðir eru frá því Guðrún strandaði og sökk í Nappstraumen. Um miðjan síðasta mánuð beindi norska þingið því til sjávarútvegsráðuneytisins að kannað yrði frekar með að fjarlægja flakið af hafsbotni. Óvíst er að sögn norskra fjölmiðla hvenær ráðuneytið tekur afstöðu til erindisins, en það hafði áður ákveðið að skipið skyldi liggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert