Lagaprófessorar ósammála um fjölmiðlafrumvarpið

Lagaprófessorarnir Sigurður Líndal og Páll Hreinsson voru ekki sammála er þeir voru spurðir álits á nýju fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á fundi allsherjarnefndar Alþingis í morgun, að því er fram kom í fréttum Bylgjunnar og RÚV í hádeginu.

Páll telur yfir allan vafa hafið að Alþingi megi fella úr gildi lög sem forseti hefur synjað staðfestingar og ekki hafa verið lögð undir þjóðaratkvæði. Hann sagði Alþingi allra stofnanna æðst og heimildir þess til lagasetningar ekki takmarkaðar af öðru en sannfæringu þingmanna og ákvæðum stjórnarskrár.

Páll tók ekki afstöðu til þess hvort fella ætti fjölmiðlalögin gömlu úr gildi eða setja ný lög í þeirra stað, að sögn RÚV, enda væri það ekki lögfræðilegt spurning heldur pólitísk eða stjórnspekileg. Sigurður Líndal sagði það álitamál hvort Alþingi geti fellt úr gildi lög sem forseti hafi synjað staðfestingar þótt ekki hafi farið fram um þau þjóðaratkvæðagreiðsla. Hins vegar sagði hann það ekki standast að setja strax ný lög lítið breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert