Skammur fyrirvari á fundarboði

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segist hafa fengið boð um að mæta á opinn fund Framsóknarfélags Reykjavíkur suður, sem haldinn var í fyrrakvöld, með mjög skömmum fyrirvara.

Hann hafi verið búinn að ráðstafa kvöldinu og þrátt fyrir viðleitni til að hliðra dagskrá sinni til hafi hann því miður ekki getað mætt.

Forysta Framsóknarflokksins var harðlega gagnrýnd á fundinum. Var meðal annars fundið að því að enginn úr forystunni mætti til að ræða við almenna flokksfélaga. Þingmenn sem sitja í framkvæmdastjórn flokksins og fengu fundarboð eru þau Halldór Ásgrímsson formaður, Guðni Ágústsson varaformaður, Siv Friðleifsdóttir ritari og Hjálmar Árnason þingflokksformaður.

"Ég er mjög ánægður með að það skuli vera líf í félagi framsóknarmanna og þeir vilji hittast til að ræða málin," segir Hjálmar. Halldór Ásgrímsson hafi af persónulegum ástæðum ekki komist á fundinn og Siv Friðleifsdóttir verið farin út úr bænum. Ekki náðist í Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra til að fá skýringar hjá honum. "Þetta eru allt eðlilegar skýringar. Það er ekki þannig að við höfum markvisst verið að sniðganga hann. Fundurinn var haldinn með mjög skömmum fyrirvara," segir Hjálmar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert