Umferð verður hleypt á fyrsta áfanga tvöfaldrar Reykjanesbrautar fimmtudaginn 29. júlí, fjórum mánuðum fyrr en í fyrstu var áætlað. Fram kemur á fréttavef Víkurfrétta að samkvæmt útboði áttu verktakar að ljúka fyrsta áfanga þann 1. nóvember á þessu ári. Minniháttar frágangi við gatnamót mun ljúka síðar.
Haft er eftir Steinþóri Jónssyni, formanni áhugahóps um örugga Reykjanesbraut, í Víkurfréttum að baráttan sé loksins að skila árangri. Vegagerðin hafi ekki getað orðið við beiðni verktaka um frekara flýtifé og því hafi allt útlit verið fyrir að þessi kafli yrði ekki opnaður fyrr en í vetur en eftir ítrekaðar viðræður við Vegagerð og verktaka hafi þeir nú náð saman um opnun þann 29. júlí n.k. án þess að til komi frekari greiðsla á flýtifé.
Samkvæmt vegaáætlun liggur ekki fyrir hvenær hafist verður handa við breikkun seinni hluta brautarinnar. Sú ákvörðun verður tekin formlega í haust þegar þing kemur saman.