Útafakstur leiðir til innbrotskæru

Maður sem hljóp frá útafakstri í Höfðahverfinu á sjötta tímanum í nótt á yfir höfði sér að verða kærður fyrir innbrot. Hljóp hann af vettvangi óhappsins en fannst stuttu seinna inni í fyrirtæki þar skammt frá.

Lögreglumenn sem komu á vettvang tóku eftir því að opin var hurð á húsi skammt þar frá sem bifreiðin fór útaf. Er þeir athuguðu málið fannst maður þar inni sem þeir könnuðust við af fyrri afskiptum af honum. Hann reyndist vera í annarlegu ástandi.

Um klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um innbrot í sendibíl sem stóð fyrir utan fyrirtæki í Skeifunni. Úr honum hafði verið stolið tölvuskjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert