Engar ákvarðanir voru teknar um framgang fjölmiðlafrumvarpsins á fundi formanna ríkisstjórnarflokkanna í stjórnarráðinu í gær. Sögðu þeir að verið væri að vinna að málinu innan allsherjarnefndar Alþingis sem myndi líklega afgreiða það eftir helgi.
Formennirnir sögðu að ríkisstjórnin stæði traustum fótum og þetta hefði ekki áhrif á samvinnu stjórnarflokkanna.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagðist ekki hafa lagt fram neinar kröfur varðandi efni eða meðferð frumvarpsins á fundinum. Hann og Davíð væru vanir að finna lausnir í sínu samstarfi og það hlyti að gilda um þetta mál líka. Eðlilegt væri að lýðræðisleg umræða um frumvarpið færi fram í Framsóknarflokknum.
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafði engar áhyggjur af málinu og sagði það í vinnslu innan allsherjarnefndar. Hann væri ekki í vafa um að farsæl niðurstaða fengist hver sem hún yrði. Ekki er gert ráð fyrir að formennirnir hittist um helgina. Davíð sagði að Halldór hefði verið að missa móður sína í fyrradag og þyrfti skiljanlega að sinna ýmsu í kringum það.