Lögreglan á Blönduósi hafði í gærkvöldi afskipti af ökumanni og tveimur farþegum bifreiðar á norðurleið. Kannaðist lögreglan við mennina en þeir hafa komið við sögu hennar áður í ýmsum málum.
Er ökumanni bifreiðarinnar voru gefin stöðvunarmerki var kastað út úr bifreiðinni litlum pakka, sem reyndist innihalda lítilræði af fíkniefnum.
Mennirnir voru handteknir og færðir á lögreglustöðina á Blönduósi þar sem leitað var í bifreið þeirra, meðal annars með fíkniefnahundi lögreglunnar á Blönduósi. Ekkert frekar fannst og var mönnunum sleppt að loknum yfirheyrslum. Einn mannanna játaði að hafa átt fíkniefnin og kvað þau hafa verið ætlað til eigin neyslu.