Tuttugu og fjórir bíllyklar að jafnmörgum bílum fundust á manni sem lögreglan í Reykjavík handtók í gær vegna gruns um þjófnað.
Handtaka mannsins, sem hefur nokkrum sinnum áður komið við sögu lögreglu, tengdist öðru máli en lögreglan fann lyklana við leit á manninum.
Samkvæmt upplýsingum frá aðalvarðstjóra lögreglunnar í Reykjavík er ekki enn vitað hvernig maðurinn notaði lyklana og hvort þeir hafa verið notaðir til innbrota í bifreiðir en yfirheyrslur yfir manninum fóru fram síðdegis í gær. Aðalvarðstjóri mundi ekki eftir því að lögreglan hefði fundið annað eins magn af bíllyklum á einum og sama manninum.
Að sögn lögreglu hefur bílþjófnaður þó ekki færst í aukana að undanförnu og ekki hefur orðið vart við að bílþjófar séu betur tækjum búnir en áður.
Lögreglan í Reykjavík vill af þessu tilefni ítreka við ökumenn að ganga eins tryggilega frá ökutækjum og kostur er og skilja ekki aukalykla eftir á glámbekk eða inni í bílnum, t.d. í hanskahólfi.