Þriggja bíla árekstur varð í Svínahrauni, við Þrengslavegamót nú eftir hádegið, með þeim afleiðingum að einn bílanna fór út af og valt. Var kona úr einum bílanna flutt slösuð með sjúkrabíl á Landsspítala-háskólasjúkrahús, en lögreglan á Selfossi gat ekki gefið upplýsingar um meiðsl konunnar að svo stöddu.
Var um að ræða fólksbíla eingöngu og varð slysið með þeim hætti að bíll stöðvaðist skyndilega úti í vegarkanti. Ökumönnum tveggja bíla, sem á eftir honum komu, tókst að sneiða hjá honum, en fjórði bílinn sem kom að lenti hins vegar aftan á þeim þriðja, með þeim afleiðingum að hann hafnaði utan vegar og valt. Fór síðan ekki betur en svo að fjórði bíllinn lenti einnig aftan á bílnum sem hafði verið annar í röðinni. Taldi lögregla að konan sem hefði slasast hefði verið í bifreiðinni sem valt utan vegar, en gat þó ekki staðfest það.