„Það var mikil ánægja með að það skuli vera búið að ná sátt í þessu máli, það er það sem við höfum alltaf viljað gera og stefnt að frá upphafi. Trúi ég því að allir séu fegnir, bæði þingmenn og þjóð,“ sagði Hjálmar Árnason, formaður þingflokks framsóknarmanna um niðurstöðu allsherjarnefndar Alþingis um fjölmiðlafrumvarpið.
Hjálmar sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að fundi þingflokksins loknum að vonandi væri málið nú komið farveg sem þing og þjóð gætu sætt sig við, „enda held ég nú að flestir séu orðnir þreyttir á langvarandi deilum.
Við metum stöðuna svo að nú verði farið yfir málið í heild sinni og út úr því komi þá væntanlega í einhverri mynd frumvarp sem væntanlega og vonandi verður meiri sátt um. Því það liggur fyrir frá öllum pólitískum flokkum vilji til þess að setja einhver lög um fjölmiðla almennt. Nú munu menn þurfa að setjast niður og viðra þau sjónarmið sín og upp úr því skyldi maður ætla að kæmi eitthvað sem væri stætt á,“ sagði Hjálmar.
Hann sagði að algjör samstaða hafi verið um niðurstöðu allsherjarnefndarinnar í þingflokki Framsóknarflokksins. „Menn eru afskaplega kátir með hana og hún er ekki snautleg. Nei, síður en svo,“ sagði Hjálmar.