Stuttur fundur var á Alþingi laust fyrir klukkan 19 í kvöld þar sem lagt var fram álit meirihluta allsherjarnefndar á fjölmiðlafrumvarpinu svonefnda og breytingartillaga nefndarmeirihlutans við frumvarpið, en hún gerir ráð fyrir því að einu greinar frumvarpsins, sem standi eftir séu þær sem kveða á um afnám fjölmiðlalaganna sem sett voru í vor en forseti Íslands synjaði staðfestingar á, og um breytta skipun útvarpslaganefndar. Hefur þingfundur verið boðaður klukkan 13:30 á morgun þar sem önnur umræða um fjölmiðlafrumvarpið fer fram. Meirihluti allsherjarnefndar leggur til að nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlumk verði undirbúið og lagt fram á haustþingi og einnig að hið fyrsta verði komið á fót nefnd, skipaðri fulltrúum allra þingflokka, til þess að endurskoða stjórnarskrána.
Í áliti meirihluta allsherjarnefndar segir að ljóst sé að beiting forseta Íslands á synjunarvaldi skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar hafi leitt til stjórnlagakreppu um túlkun einstakra ákvæða stjórnarskrár, m.a. um valdheimildir Alþingis. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að ná sem víðtækastri sátt og samstöðu um málið hafi minnihluti nefndarinnar, þ.e. stjórnarandstaðan, ekki verið til viðræðu um slíkt. Af þeirri umræðu sem átt hafi sér stað frá því á vordögum sé ljóst að enginn áhugi sé á því á vettvangi stjórnarandstöðunnar að setja eignarhaldi á fjölmiðlum skorður þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar.
Í störfum nefndarinnar hafi verið farið vandlega yfir álitamál sem vörðuðu heimildir Alþingis til þess að fella úr gildi lög sem forseti Íslands hefði synjað staðfestingar. Jafnframt hafi nefndin tekið til sérstakrar skoðunar hvort því væru einhver takmörk sett að stjórnskipunarrétti að Alþingi setti ný lög um sama efni. Meirihlutinn telji ótvírætt, m.a. með vísan til tiltekinna greina stjórnarskrár, að valdheimildir Alþingis standi til þess að fella niður fjölmiðlalögin sem sett voru í vor. Styðjist þessi niðurstaða m.a. við umsagnir ýmissa þeirra álitsgjafa sem fyrir nefndina komu. Því lögfræðilega áliti hafi þó verið hreyft að þetta væri yfir höfuð ekki heimilt þar sem forseti hefði synjað lögunum staðfestingar. Væri þá skilyrðislaust að fram þyrfti að fara þjóðaratkvæðagreiðsla skv. 26. gr. stjórnarskrár.
Þá héldu tveir prófessorar þeirri skoðun fram með ólíkum rökstuðningi þó að þó svo að heimilt væri að fella lögin úr gildi án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla væri ekki heimilt nú, á sama þingi, að setja ný lög um efnið. Meirihlutinn segist hins vegar telja ótvírætt að valdheimildir Alþingis standi til þess að fella niður lögin án þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla, enda takmarkist þær ekki af öðru en ákvæðum stjórnarskrárinnar sjálfrar. Í 26. gr. hennar verði ekki talin fólgin slík takmörkun, hvorki samkvæmt textaskýringu né á slík takmörkun sér stoð í lögskýringargögnum.
„Þrátt fyrir að nefndin telji jafnframt heimilt að setja ný lög samhliða því að fella niður lögin frá liðnu vori er ljóst að um málið hefur við hinar afbrigðilegu aðstæður undanfarinna vikna skapast ágreiningur um stjórnskipulegar heimildir handhafa ríkisvaldsins. Dregur það með öðru fram þann vafa sem í öllu tilliti er á beitingu og framkvæmd 26. gr. stjórnarskrárinnar og því hver sú stjórnskipulega hugsun í raun var sem á sínum tíma bjó henni að baki. Sá munur sem fram hefur komið á skoðunum manna um beitingu greinarinnar endurspeglar ekkert minna en grundvallarmun á afstöðu til stjórnskipunar okkar og valdmarka handhafa ríkisvaldsins.
Telur meiri hlutinn mikilvægt að taka til við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar svo sem lögð var áhersla á þegar við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar árið 1944, einkum I. og II. kafla, og forsætisráðherra lýsti sig reiðubúinn til að beita sér fyrir á haustþingi við jákvæðar undirtektir leiðtoga annarra stjórnmálaflokka.
Með hliðsjón af þeim stjórnskipulega vafa sem uppi er leggur meiri hlutinn til að tilvitnuð lög nr. 48/2004 verði felld brott. Samhliða því verði lögfest breytt skipan útvarpsréttarnefndar, en aðrar breytingar verði skoðaðar nánar og m.a. látið á það reyna til fullnustu hvort stjórnarandstaðan er í raun tilbúin til að rjúfa þann varnarmúr sem hún hefur á undanförnum mánuðum slegið um það takmarkalausa form eignarhalds á fjölmiðlum sem viðgengist hefur. Meiri hlutinn mælir með því að nýtt frumvarp í þá veru verði undirbúið og lagt fram á haustþingi," segir í áliti nefndarmeirihlutans.
Þá leggur nefndarmeirihlutinn til að hið fyrsta verði komið á fót nefnd skipaðri fulltrúum allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, til þess að endurskoða stjórnarskrána sem að framan greini. Hagi nefndin störfum sínum á þann veg að Alþingi geti afgreitt breytingar þar að lútandi á yfirstandandi kjörtímabili.
Fram kemur að Jónína Bjartmarz, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, skrifar undir álitið fyrirvara við þá fullyrðingu sem þar komi fram að fjölmiðlalögin, sem sett voru í vor, standist stjórnarskrá.