Hætt við leka mánuðum saman úr Guðrúnu KE-15

Björgunarskip athafnar sig yfir Guðrúnu Gísladóttur í Nappstraumen við Lófót.
Björgunarskip athafnar sig yfir Guðrúnu Gísladóttur í Nappstraumen við Lófót. mbl.is

Hætt er við því að olía leki mánuðum saman úr flaki fjölveiðiskipsins Guðrúnar Gísladóttur KE-15 sem liggur á hafsbotni við Lófót í Noregi. Ottvar Longva hjá norsku strandgæslunni segir að engin umhverfishætta sé af leknum.

Strandgæslan fór í gær í flugleiðangur yfir hafsvæðið þar sem Guðrún liggur til að kanna umfang lekans úr skipinu. Að mati Longva flutu um 10 lítrar af díselolíu í Nappstraumen, sundinu sem skipið sökk í.

Strandgæslan sér því enga ástæðu til þess að grípa til ráðstafana við skipið. Lekinn úr skipinu kom í ljós í fyrradag en nýverið var tilkynnt að björgun olíu úr skipinu væri lokið.

„Olíuflekkir á sjó eru ekki fögur sjón og þeir lykta. En umhverfinu stendur engin vá af þessum leika,“ segir Longva í samtali við norska blaðið Lofotposten.

Talsmaður björgunarfélagsins Riise Underwater Engineering sem sá um að dæla olíu úr Guðrún KE segir lekann ekki koma sér á óvart. Þrátt fyrir að olíu hafi verið dælt úr tönkum hafi mátt ganga út frá því að díselolía væri í ýmsum rýmum skipsins sem útilokað væri að komast að. Þegar skipið svo nuddaðist við botninn vegna strauma og veðurs myndi olían smjúga út úr því.

Björgunarfélagsstjórinn segist engan tilgang sjá í að reyna taka flakið upp vegna olíuleikans. Meðfram Noregsströndum liggi 2.500 skipsflök. Og hefði Guðrún legið á fimm metra meira dýpi hefði tæpast verið átt við að ná olíunni úr henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert