125 manns leita að Sri Rhamawati í nágrenni höfuðborgarsvæðisins

Frá Stórholti í Reykjavík þar sem síðast er vitað um …
Frá Stórholti í Reykjavík þar sem síðast er vitað um ferðir Sri Rhamawati á heimili barnsföður hennar, sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa ráðið henni bana. mbl.is

Björgunarsveitir Landsbjargar hefja skipulagða leit kl. sautján í dag að Sri Rhamawati, sem ekkert hefur spurst til síðan 4. júlí sl. Verða eitt hundrað tuttugu og fimm manns við leit og hafa til umráða tuttugu og fimm björgunarsveitarbíla. Skipulögð hafa verið fjörutíu og níu leitarsvæði víðs vegar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Að sögn Valgeirs Elíassonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er gert ráð fyrir að leit verði lokið fyrir helgi en þar sem ekki sé um lífleit að ræða hefjist hún ekki fyrr en kl. fimm síðdegis þegar björgunarsveitarfólk sé flest búið í vinnu.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Reykjavík, sagði í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins að rannsóknin héldi áfram en enginn hverfipunktur væri í henni. Hann sagði að búið væri að leita að konunni en nú væri verið að útfæra svæði, sem leitað hefur verið á, og leita á öðrum nálægum svæðum, sem ekki hefur verið leitað sérstaklega á hingað til. Þegar leitinni ljúki verði framhaldið skoðað.

Búið er að leita á Geldinganesi og öðrum svæðum, sem talið var að gætu tengst málinu.

Barnsfaðir Sri Rhamawati, sem grunaður er um að hafa ráðið henni bana, er í gæsluvarðhaldi til 11. ágúst nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert