Björgunarsveitir Landsbjargar hófu skipulagða leit klukkan 17 í dag að Sri Rhamawati, sem ekkert hefur spurst til síðan 4. júlí sl. Alls taka 125 manns þátt í leitinni og verða 25 björgunarsveitarbílar notaðir við hana. Leitað verður á 49 svæðum víðsvegar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Valgeir Elíasson, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í dag að gert væri ráð fyrir að leit yrði lokið fyrir helgi. Rannsókn málsins heldur áfram, að því er Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík, sagði í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrr í dag.
Hann sagði að búið væri að leita að konunni en nú væri verið að útfæra svæði, sem leitað hefur verið á, og leita á öðrum nálægum svæðum, sem ekki hefur verið leitað sérstaklega á hingað til. Þegar leitinni ljúki verði framhaldið skoðað.
Barnsfaðir konunnar, sem grunaður er um að hafa ráðið henni bana, verður í gæsluvarðhaldi til 11. ágúst.