Fyrrverandi sambýlismaður Sri Rhamawati, 33 ára konu sem saknað hefur verið síðan 4. júlí, viðurkenndi í gær að hafa varpað líki hennar fram af klettum á Kjalarnesi og féllst á að sýna lögreglu staðinn í gærkvöldi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Ekki liggur þó fyrir játning hans á því hvernig andlát hennar bar að. Líkið hefur hins vegar ekki fundist.
Sakborningurinn fékk að fara úr gæsluvarðhaldi sínu í gær í fyrsta sinn í þeim tilgangi að fara með lögreglunni upp á Kjalarnes þar sem hann sýndi henni nákvæmlega hvar hann varpaði líkinu í sjóinn fram af 7-8 metra háum klettum. Sjórinn er grunnur undir klettunum en straumþungt er á þessum slóðum. Hann hefur samkvæmt heimildum ekki lýst ástæðum og aðdraganda þess að hún beið bana.
125 björgunarsveitarmenn tóku í gær þátt í umfangsmestu leit að Rhamawati frá upphafi málsins, en þegar hinn grunaði féllst á að greina frá staðnum var leitarmönnum beint á það svæði. Hinn grunaði fór síðan með lögreglunni og sýndi henni staðinn. Samkvæmt heimildum var líkið sett í poka áður en því var komið fyrir.
Lýsing hans kemur heim og saman við þær rannsóknir sem lögreglan hefur gert og studdi þá tilgátu lögreglunnar að líkið væri að finna innan 25 km radíuss frá Reykjavík, en þar liggur m.a. til grundvallar rannsókn á jeppa hins grunaða.
Í kjölfar þessa áfanga í rannsókn málsins verða aðstæður metnar og ákveðið í framhaldi af því til hvaða ráðstafana verður gripið, að sögn Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.