Fjórir lögreglukafarar eru nú að hefja köfun við Hofsvík á Kjalarnesi þar sem fyrrverandi sambýlismaður Sri Rhamawati hefur viðurkennt að hafa varpað líki hennar fram af klettum, en hann sýndi lögreglu staðinn í gærkvöldi. Auk þess njóta þeir aðstoðar björgunarbáts og kafara frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Síðar í dag hefst umfangsmikil leit björgunarsveitarmanna í fjörum, skerjum og eyjum á svæði frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum. Tveir lögreglukafaranna eru úr sérsveit ríkislögreglustjórans og tveir úr lögreglunni í Reykjavík.
Í gær leituðu 130 björgunarmenn á og við Kjalarnes en á útfiri um klukkan 18 í kvöld verður bætt í leitina af sjó og munu bætast við fleiri bátar og björgunarskip. Ætlunin er að senda á leitarflokka í eyjar og sker í Kollafirðinum en einnig verður leituð áfram strandlengjan út frá Hofsvík inn að Mosfellsbæ og í átt að Hvalfjarðargangamunnanum.
Í gærkvöldi var leitað eftir strandlengjunni frá Kjalarnesi og inn að botni Kollafjarðar bæði af sjó og landi. Þá voru björgunarsveitarmenn í flotgöllum sendir í sker á svæðinu þar sem þeir leituðu í þara gróðri. Við leitina voru notaðir 19 jeppar, 1 björgunarskip, 5 bátar.