Leit 10 kafara Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sérsveitar ríkislögreglustjórans og lögreglunnar í Reykjavík að líki Sri Rhamawati við Presthúsatanga í Hofsvík á Kjalarnesi hefur gengið erfiðlega, samkvæmt upplýsingum Fréttavefjar Morgunblaðsins (mbl.is), vegna mikils þangs á leitarsvæðinu. Hafa kafararnir orðið að feta sig áfram en leit þeirra hefur nú staðið í um tvær stundir.
Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Einar Sigurjónsson frá Hafnarfirði, er á vettvangi ásamt tveimur slöngubátum sem hafa aðstoðað kafarana við leitina.
Á sjöttatímanum hefst síðan umfangsmikil leit yfir 100 björgunarsveitarmanna að Sri Rhamawati. Leituð verður strandlengjan allt frá Hvalfirði inn að Geldingarnesi við Grafarvog. Þá verður farið með leitarflokka í eyjar og sker í Kollafirði. Tvö björgunarskip munu taka þátt í leitinni ásamt sex bátum.