Flutti líkið í drapplituðum póstpoka

Kafarar lögreglunnar við leit á Kjalarnesi í vikunni.
Kafarar lögreglunnar við leit á Kjalarnesi í vikunni. mbl.is/Júlíus

Lögreglan í Reykjavík segir, að Hákon Eydal, sem hefur játað að hafa orðið Sri Rhamawati að bana, hafi lýst því hvernig hann setti lík hennar í stóran drapplitaðan sænskan póstpoka úr nyloni og flutt líkið í bíl sínum á stað við sunnanvert Kjalarnes. Segir lögregla, að atvikið tengist hvorki vímuefnanotkun af hálfu þess handtekna né öðrum getgátum, sem ýjað gæti hafa verið að. Ástæðan hafi verið bæði langvarandi og skyndileg.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir, að frá upphafi hafi verið unnið markvisst að rannsókn málsins, rætt við fjölda fólks og hugsanleg vitni. Leit hafi farið fram á nokkrum stöðum og hafi lögregla notið aðstoðar björgunarsveita, m.a. sérhæfðra leitarhópa. Þyrla hefur verið notuð til að skoða ákveðin svæði. Lögreglumenn með leitarhunda hafi farið um á völdum stöðum og loks hafi lögreglumenn skipulega farið um staði í nágrenni Reykjavíkur.

Í tilkynningunni segir, að lögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki auglýst eftir ökutæki sem gæti hafa tengst hvarfinu. Í ljósi niðurstöðu málsins liggi fyrir að slíkt hefði verið verra eins og staðan var. Reynslan sýni að fjölmargar ábendingar og tilgátur berast þegar það sé gert og kalli á mikinn tíma og mannafla að vinna úr þeim öllum. Í þessu tilviki hafi lögreglan verið á réttri leið frá upphafi rannsóknarinnar. Þá hafi lögreglan verið gagnrýnd fyrir að sýna málinu minni áhuga vegna þess að um útlending væri að ræða. Við rannsóknina hafi það engin áhrif haft á gang hennar og umfang.

„Þann 27. júlí benti hinn handtekni á staðinn, sem hann sagðist hafa komið líkinu af Sri Rhamawati fyrir. Áður hafði verið leitað í tvígang á því svæði. Þann 28. júlí játaði hann fyrir lögreglu að hafa orðið Sri Rhamawati að bana með barefli í íbúð sinni að morgni sunnudagsins 4. júli. Ástæðan var bæði langvarandi og skyndileg. Hann hafi í framhaldi af því sett líkið í stóran drapplitaðan sænskan póstpoka úr nyloni, fært það í bifreið sína og ekið því á þann stað, sem hann hafði þegar bent á við sunnanvert Kjalarnes. Atvikið tengist hvorki vímuefnanotkun af hálfu þess handtekna né öðrum getgátum, sem ýjað gæti hafa verið að.

Kafarar frá lögreglunni í Reykjavík og sérsveit Ríkislögreglustjóra með góðu liðsinni kafara frá Landsbjörgu hafa skoðað hafsbotninn utan við staðinn. Þá hafa liðsmenn Landsbjargar gengið fjörur í tvígang, en án árangurs hingað til. Verið er að gera ráðstafanir til að kanna og meta rek og stefnu hafstrauma á svæðinu og munu frekari aðgerðir þar taka mið af þeirri niðurstöðu.

Rannsóknir erfiðra og flókinna mála geta tekið tíma. Lögreglan reynir jafnan að gera sitt besta í hverri rannsókn. Mikilvægt er að fjölmiðlafólk sem og almenningur sýni henni og öðrum skilning þegar þannig stendur á,"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert