Fyrrverandi sambýlismaður Sri Rhamawati, 33 ára konu sem saknað hefur verið síðan 4. júlí, játaði í gær að hafa orðið henni að bana. Sakborningurinn heitir Hákon Eydal og er 45 ára að aldri. Situr hann í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins. Hákon játaði á sig manndráp við yfirheyrslur hjá lögreglu í gær, en atburðurinn átti sér stað í íbúð hans í Stórholti að morgni 4. júlí. Í framhaldi verknaðarins flutti hann lík hinnar látnu í poka upp á Kjalarnes og varpaði því í sjóinn fram af klettum í Hofsvík.