Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lét banamaður Sri Rhamawati morðvopnið fylgja með í poka sem hann setti konuna í áður en hann kastaði henni í sjóinn. Hann setti einnig grjót í pokann til að þyngja hann.
Lögreglan í Reykjavík vildi í gærkvöldi ekki staðfesta þessar upplýsingar. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að Hákon Eydal, sem hefur játað að hafa orðið Sri að bana, réðst að henni með barefli að morgni sunnudagsins 4. júlí. Að því búnu lét hann líkið í stóran drapplitaðan sænskan póstpoka úr næloni. Hann ók síðan með það að Presthúsatöngum í Hofsvík á Kjalarnesi þar sem hann varpaði því í sjóinn.
Mikil leit kafara og björgunarsveitarmanna að líkinu hefur engan árangur borið. Leitinni var frestað í gær vegna veðurs. Hugsanleg fíkniefnaneysla Hákons er ekki talin tengjast morðinu.