Lík Sri Rhamawati fannst í hraunsprungu við Hafnarfjörð

Lögreglumenn leita að líki Sri Rhamawati í hrauni við Hafnarfjörð …
Lögreglumenn leita að líki Sri Rhamawati í hrauni við Hafnarfjörð í kvöld. mbl.is/Júlíus

Lík Sri Rhamawati, 33 ára gamallar konu sem leitað hefur verið að frá því í júlíbyrjun, fannst í kvöld í hraunsprungu utan við Hafnarfjörð. Fyrrum sambýlismaður Sri, sem viðurkenndi í síðustu viku að hafa orðið henni að bana og sagðist hafa varpað líki hennar fram af klettum á Kjalarnesi, vísaði lögreglu á líkið. Sakborningurinn heitir Hákon Eydal og er 45 ára að aldri.

Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu lögreglunnar, að fyrrum sambýlismaður Sri hafi þann 27. júlí bent á staðinn, sem hann sagðist hafa komið líki hennar fyrir á. Sagðist hann hafa kastað því fram af klettum á Presthúsatöngum á sunnanverðu Kjalarnesi. Þann 28. júlí játaði hann fyrir lögreglu að hafa orðið Sri Rhamawati að bana með barefli í íbúð sinni að morgni sunnudagsins 4. júlí.

„Frekari rannsóknir á vettvangi á Kjalarnesi gerðu frásögn hins handtekna ótrúverðuga. Þann 3. ágúst féllst hann á að vísa lögreglunni á lík Sri Rhamawati þar sem hann hafði komið því fyrir í hraunsprungu utan við Hafnarfjörð og urðað yfir. Við leit þar fannst líkið á tilgreindum stað," segir í tilkynningunni. Rannsókn málsins heldur áfram.

Líkið var í drapplituðum sænskum póstpoka úr næloni, líkt og Hákon hafði áður greint frá, og var bundið fyrir hann með gallabuxum. Pokinn var þakinn grjóti og þurfti að bregða böndum á suma hnullungana til að ná þeim upp úr sprungunni. Einnig varð að draga pokann upp með böndum. Hraungjótan sem um ræðir er um þriggja metra djúp og svo þröng að aðeins einn lögreglumaður komst þar fyrir til að ná grjóti ofan af líkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert