Fjölskylda Sri Rhamawati sendir lögreglu þakkir

Fjöldskylda og aðstandendur Sri Rhamawati hafa sent frá sér yfirlýsingu, þar sem komið er á framfæri þakklæti til lögreglunnar, björgunarsveita og annarra sem tekið hafa þátt í leitinni að Sri fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Lík Sri fannst í hraunsprungu við Hafnarfjörð en banamaður hennar vísaði lögreglu á líkið.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Við viljum koma á framfæri þakklæti okkar til lögreglunnar sem unnið hefur mikið og gott starf allt frá því að Sri hvarf. Getgátur um að lögreglan hafi ekki sinnt okkur sem skyldi eru ekki á rökum reistar og vísum við allri gagnrýni á störf lögreglunnar á bug. Þvert á móti þykir okkur lögreglan hafa unnið starf sitt af heilindum og komið fram við okkur af mikilli alúð og nærgætni. Kunnum við starfsmönnum lögreglunnar hjartans þakkir fyrir.

Við viljum einnig koma á framfæri innilegum þökkum til meðlima hjálparsveita og annarra sem tóku þátt í leitinni að Sri fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Þá viljum við þakka tengilið okkar við lögregluna fyrir að hafa gert óskemmtilega lífsreynslu eilítið bærilegri.

Að gefnu tilefni viljum við hvetja suma fjölmiðla hér á landi til að endurskoða starfshætti sína og temja sér og starfsmönnum sínum frekari nærgætni gagnvart þeim sem þurfa að þola afleiðingar ofbeldisglæpa.

Fyrir hönd fjölskyldu og aðstandenda,
Nana Mardiana, Sigurgeir Sigurðsson og Fikri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert