Kúbein fannst á botni gjótunnar

Lögreglumenn að störfum hrauni við Hafnarfjörð þar sem lík Sri …
Lögreglumenn að störfum hrauni við Hafnarfjörð þar sem lík Sri fannst. mbl.is/Júlíus

Kúbein sem lögreglan telur að Hákon Eydal hafi notað til að myrða Sri Rhamawati að morgni 4. júlí sl. fannst í gær við rannsókn lögreglu á gjótunni þar sem lík konunnar hafði verið falið. Hákon vísaði lögreglu á gjótuna í fyrradag en hún liggur í hrauni sunnan við Reykjanesbraut, suðvestur af Straumsvík.

Kúbeinið var á gjótubotninum undir líkinu og segir lögregla að erfitt hafi verið að komast að því en gjótan er mjög þröng neðst. Kúbeinið er nú hjá rannsóknardeild lögreglunnar og verður vopnið borið saman við þær upplýsingar sem liggja fyrir af vettvangi, að sögn Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Hann segir að rannsókn málsins haldi áfram.

"Nú er lokavinnan eftir og við munum bera saman gögn og staðreyndir og fá nánari skýringar þannig að málið liggi allt ljóst fyrir," segir Ómar en kveðst ekki geta sagt til um hvenær rannsókninni ljúki.

Hákon Eydal hafði áður sagt lögreglu að hann hefði hent líkinu fram af klettum á Presthúsatanga á Kjalarnesi. Í kjölfarið hófst vikulöng árangurslaus leit í nágrenninu við staðinn sem 125 björgunarsveitarmenn tóku þátt í ásamt köfurum og lögreglu.

Ómar segir að lögreglan taki ábendingum eins og þeirri sem þeir fengu frá Hákoni iðulega með fyrirvara og hafi ekki kippt sér upp við það þótt frásögn hans hafi ekki reynst vera sönn.

"Það gerist í ýmiss konar málum að reynt sé að afvegaleiða lögreglu og segja ósatt. Það verður að taka öllu slíku með jafnaðargeði og við könnum það í hvert og eitt skipti hvort slíkar ábendingar séu á rökum reistar," segir Ómar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert