Bandarísk þingsendinefnd er væntanleg hingað til lands hinn 24. ágúst næstkomandi, en nefndin hyggst eiga viðræður við fulltrúa frá Alþingi og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra. Þá ætlar hún að kynna sér tilraunir á vetni hér á landi. Einnig verða loftlagsbreytingar til umræðu. Gert er ráð fyrir að sendinefndin millilendi í Keflavík og haldi af landi brott síðar um daginn.
Talið var að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú, yrði á meðal nefndarmanna hingað til landsins, en svo er ekki. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að Hillary væri ekki á lista yfir þá bandarísku þingmenn sem hingað koma þennan dag. Hún taki hins vegar þátt í hluta af ferð sendinefndarinnar, sem heimsækir Eistland, Lettland, Úkraínu og Noreg í þessari ferð.
Hins vegar verður John McCain, öldungadeildarþingmaður í nefndinni hingað til lands ásamt þingmönnunum Lindsey Graham og Susan Collins og fylgdarliði en McCain sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni fyrir fjórum árum. Gunnar Snorri sagði að McCain væri áhugasamur um ríki á norðurslóðum og sýndi vetnismálum sérstakan áhuga. Gert er ráð fyrir að Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, eigi fundi með McCain á meðan heimsókn sendinefndarinnar stendur yfir. Gunnar sagði að á fundi Halldórs og McCain yrði rætt almennt um samskipti Bandaríkjanna og Íslands og einnig þau mál sem McCain hefur sérstakan áhuga á. Þeir hafa hist áður, meðal annars á öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi.
Einnig verður rætt um loftlagsbreytingar í heimsókn nefndarinnar. Gunnar Snorri segir að loftlagsbreytingar hefðu sérstök áhrif á norðurslóðum og þar væri ennfremur hægt að sjá hvernig slíkar breytingar hafa áhrif á heiminn. Þá væru Íslendingar í formennsku í Norðurskautsráðinu og því eðlilegt að slík mál yrðu rædd í heimsókn nefndarinnar. Ennfremur er gert ráð fyrir að Íslensk nýorka kynni nefndinni þær vetnistilraunir sem hafa átt sér stað hér á landi.
Ekki er gert ráð fyrir að nefndin komi til Reykjavíkur heldur fara viðræðurnar fram á Suðurnesjum, líklega við Bláa lónið.