Sendinefnd frá bandaríska þinginu mun síðar í ágúst heimsækja Ísland, Eistland, Lettland, Úkraínu og Noreg og ræða samskipti Bandaríkjanna og þessara landa. Að því er kemur fram í frétt AP fréttastofunnar verður nefndin undir stjórn John McCains, öldungadeildarþingmanns, en meðal annarrra nefndarmanna verða Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú og John Sununu, öldungadeildarþingmaður fyrir New Hampshire. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu kemur Clinton þó ekki til Íslands.
Fram kemur að umhverfismál og loftslagsbreytingar verða einnig til umræðu í ferðinni, sem stendur frá 21. ágúst til 24. ágúst.
McCain sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni fyrir fjórum árum.