Stöð 2 sagði í kvöld, að von væri á hjónunun Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Hillary Clinton, öldungardeildarþingmanni, til Íslands í næstu viku. Hillary kemur hingað með þingmannanefnd sem ferðast til nokkurra Evrópuríkja. Þingmennirnir verða hér aðeins hluta af degi, en Stöð 2 sagði að Clintonhjónin ætluðu að dvelja hér á landi í nokkra daga.
Fram kom í frétt mbl.is í síðustu viku, að von væri á bandarísku þingmönnunum hingað til lands 24. ágúst, en nefndin er undir forustu Johns McCains, öldungadeildarþingmanns. AP fréttastofan sagði þá að Hillary Clinton yrði með í för til Íslands en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu var nafn hennar ekki á lista yfir þá bandarísku þingmenn sem hingað áttu að koma þennan dag.