Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mun hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra meðan á heimsókn hans hingað til lands á þriðjudag stendur.
Bill Clinton kemur í einkaerindum á þriðjudagsmorgun, og dvelur hér á landi fram á kvöld. Skv. upplýsingum frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi eru tímasetningar á fundum Clintons með íslenskum ráðamönnum ekki gefnar upp opinberlega, bæði öryggis hans vegna og vegna þess að þær geti breyst með skömmum fyrirvara.
Bandarísk þingnefnd sem í er m.a. Hillary Clinton, eiginkona Bill Clintons, kemur einnig hingað til lands á þriðjudagsmorgun í þeim erindagjörðum að kynna sér orkumál. Í nefndinni eru John McCain - sem fer fyrir nefndinni, Hillary Rodham Clinton, Lindsey Graham, John Sununu og Susan Collins. Nefndarmenn fara í Bláa lónið og snæða hádegisverð í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra. Þeir fá því næst um klukkustundar langa kynningu frá Íslenskri nýorku um notkun vetnis sem orkugjafa.
Nefndarmeðlimir munu ekki stoppa lengi hér á landi, og munu fara af landi brott eftir um fjögurra klukkustunda dvöl.
Nefndin hefur verið á ferð um Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin til að kynna sér orkumál, og kemur hún væntanlega hingað til lands frá Noregi. Heimsóknin til Íslands er sú síðasta í röðinni áður en nefndin snýr aftur til Bandaríkjanna.
Ríkislögreglustjóri mun gæta öryggis þingnefndarinnar hér á landi í samvinnu við bandaríska sendiráðið, en Clinton-hjónin eru auk þess hvort með sína sveitina af lífvörðum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna sem munu fylgja þeim hér á landi.