Bill Clinton fræddur um sögu Þingvalla

Sigurður Líndal fræðir Bill Clinton um sögu Þingvalla á Lögbergi …
Sigurður Líndal fræðir Bill Clinton um sögu Þingvalla á Lögbergi nú í morgun. mbl.is/Arna

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kom ásamt föruneyti til Þingvalla í kringum 11 í morgun. Hann gekk niður Almannagjá undir leiðsögn Sigurðar Líndal, fyrrverandi lagaprófessors, en þaðan var haldið að útsýnispallinum í Lögbergi. Þar greindi Sigurður nánar frá sögu staðarins og las upp fyrir Clinton, sem hlýddi á íbygginn á svip. Þegar Sigurður hafði lokið tölu sinni heyrðist Clinton lýsa því yfir hversu fagurt væri á Þingvöllum.

Bill Clinton hyggst snæða hádegisverð á Þingvöllum, en athygli hefur vakið hversu léttur í viðmóti hann er við ferðamenn sem þar eru. Gert er ráð fyrir að Clinton muni eiga fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16 og Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, í ráðherrabústaðnum í kringum fimm í dag.

Bill Clinton, sem kom hingað til lands í morgun, hyggst hitta Hillary, eiginkonu sína, sem einnig er stödd hér á landi, síðar í dag, en þaðan halda þau til Írlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert